Ánægjulegt símtal um vetraráætlun Herjólfs

Á föstudaginn lauk samráðshópur um Landeyjahöfn, sá er ég veiti formennsku, sinni fyrstu áfangaskýrslu. Í kjölfarið fundaði ég með Ögmundi Jónassyni ráðherra sem ég lít á sem félaga en pólitískan andstæðing. Fundurinn fór að sjálfsögðu vel fram enda Ögmundur bæði hlýr og glaðlegur persónuleiki sem auðvelt er að láta sér lynda við, og skiptir þá engu þótt maður sé ekki sammála honum í stjórnmálum. Mig langar meira að segja oft að vera sammála honum en læt það ekki eftir mér enda hefðum við þá yfirleitt báðir á röngu að standa.
 

Fundarefnið var náttúrulega áfangaskýrsla sú sem samráðshópurinn hafði sammælst um.  Það sem ég lagði þyngstu áherslu á var að ráðherra tæki strax ákvörðun um vetraráætlun Herjólfs enda ótækt að vera í óvissu með slíkt nú þegar veturinn er við þröskuldinn.  Fyrir lá að heimildir Vegagerðarinnar opnuðu einungis á 3 ferðir á dag fimm daga vikunnar og fjórar ferðir á föstudögum og sunnudögum.  Ég lýsti þeirr eindregnu skoðun minni að að fjórar ferðir væru alger lágmarks þjónusta og hvatti hann til að beita sér í málinu. 


Ögmundur bað um dálítinn frest til að fara yfir þetta mál enda reksturinn þungur.  Á fundinum ræddum við svo ýmis önnur stór hagsmunamál sem öll tengdust Landeyjahöfn.  Ég mun á næstu dögum gera betur grein fyrir því sem er að finna í áfangaskýrslunni.


Það var svo ánægjulegt þegar ég fékk í gær skemmtilegt símtal þar sem mér var sagt að Ögmundur hefði fallist á þau rök að fjórar ferðir á dag milli lands og eyja væru eðlileg lágmarksþjónusta á þjóðveginum til Vestmannaeyja.  Sem sagt Herjólfur siglir að lágmarki fjórar ferðir á dag milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja í vetur. 

Previous
Previous

Þegar rökin þrjóta er auðveldara að tækla manninn en boltann

Next
Next

Staðreyndin er sú að Vestmannaeyjar skaðast (eins og reyndar hagkerfi landsins)