Staðreyndin er sú að Vestmannaeyjar skaðast (eins og reyndar hagkerfi landsins)

Í morgun ræddi ég við þau vini mína í Ísland í bítið um kvótakerfið og álit Vestmannaeyjabæjar á frumvarpi því sem unnið er að því að leggja fyrir á alþingi.  Án þess að ég halli á það góða starf sem fer fram á Bylgjunni þá þykir mér þessir þættir hjá Heimi og Kollu ásamt Sprengisandi Sigurjóns M. Egilssonar bera af öðru efni hjá stöðinni.

Upptöku af viðtalinu má finna hér: http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP6129 

Um hið arfavitlausa og hættulega frumvarp vil ég hinsvegar benda á þetta:

Íbúum mun fækka um 500

Við hjá Vestmannaeyjabæ höfum lagst vandlega yfir þær breytingar sem verða ef frumvarpið nær fram að ganga.  Með okkur hafa unnið bæði hagfræðingar og viðskiptafræðingar.  Niðurstaðan er skelfileg.  Það liggur hreinlega fyrir að verði frumvarpið óbreytt að lögum, mun það leiða til mikillar fólksfækkunar í Vestmannaeyjum enda gert ráð fyrir skerðingu aflaheimilda í Eyjum um níu þúsund þorskígildistonn á næstu fimmtán árum eða um 15 prósent.

Aflaverðmæti Vestmannaeyja munu því að óbreyttu minnka árlega um tæpa þrjá milljarða króna eða um 714 þúsund á hvern íbúa. Að mati okkar munu um 100 manns, sem starfa við veiðar og vinnslu, missa vinnuna og með afleiddum störfum má gera ráð fyrir að um tvö hundruð störf tapist. Forsendur á annað hundrað fjölskyldna fyrir búsetu í Eyjum bresta eins og rökstutt er í álitinu. Það myndi hreinlega merkja að íbúum mun fækka um allt að 500.

Tapað útsvar 1,1 milljarður

Tekjutap bæjarsjóðs verður af sjálfsögðu mikið, jafnvel þótt eingöngu sé litið til útsvarsgreiðslna. Skerðing um 9000 þorskígildistonn samsvarar um 4,1 milljarði króna í verðmætum. Laun að frádregnum launatengdum gjöldum eru um 29%. Séu einnig greiðslur í lífeyrissjóði dregnar frá stofni má reikna með að um 27,5% af af þessum 4,1 milljarði séu laun. Tapaðar tekjur til útsvars nema því rúmlega 1,1 milljarði. Útsvarsprósentan í Vestmannaeyjum er 14,48% sem merkir að samfélagið tapar í beinum útsvarstekjum hvorki meira né minna en rúmlega 163 milljónum. Sem dæmi má nefna að rekstur félagsþjónustu í Vestmannaeyjum árið 2011 er áætlaður 148 milljónir króna. Jafnvel þótt hún yrði aflögð myndi það ekki duga til að mæta tekjutapinu.

Afturhvarf um áratugi og aukin miðstýring

Frumvarpið felur að mati Vestmannaeyjabæjar í sér mikil líkindi við fyrri fiskveiðistjórnun landsmanna þegar ólympískar veiðar og offjárfesting réðu för fremur en hófsöm nýting, hagkvæmni og hámörkun aflaverðmætis. Samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs verður lakari og minn hagsæld innanlands. Frumvarpið gerir ráð fyrir stórauknu miðstýringarvaldi ráðherra, sem m.a. verða heimiluð inngrip í stjórnun sjávarútvegsfyrirtækja við ákvarðanir um ráðstöfun afla úr sjó. Aukin völd ráðherra munu leiða til spillingar og ójafnræðis.

Ekki boðlegt að slita 27 orð úr samhengi til að véfengja alvarlegar niðurstöður

Engin hefur dregið þessar niðurstöður í efa enda þær hafnar yfir vafa og auðvelt að færa fyrir þeim rök.  Þeir sem vilja halda áfram að berja höfðinu í steininn jafnvel þótt frumvarpið hafi þessi skelfilegu áhrif hafa því farið þá leið að gagnrýna 27 orð af næstum því 7500.  Það er að segja líkindi við önnur áföll sem á okkur hafa dunið.  Slíkt er ekki boðlegt  þegar Vestmannaeyjar -og í raun hagkerfi okkar Íslendinga- standa andspænis svona alvarlegum afleiðingum.

Previous
Previous

Ánægjulegt símtal um vetraráætlun Herjólfs

Next
Next

Norðmenn í heimsókn - Eldgosið í Eyjum