Nýtt tákn framtíðarsýnar okkar á Óseyrartanganum

Ölfus er í stórsókn. Það sjá allir sem fylgjast grannt með framvindu mála í landinu, og við hér í sveitarfélaginu finnum það og sjáum dag hvern. Verkefnin í landeldi, uppbygging hafnarinnar og önnur stór virðisaukandi verkefni hafa sett okkur á kortið. En það er ekki síður mikilvægt að minna á þá róttæku sókn sem nú á sér stað í ferðaþjónustu, grein sem mun verða ein af stoðum framtíðaruppbyggingar okkar.

Náttúran við svörtu fjöruna okkar skapar þessu einstaka hóteli umgjörð sem verður vart jöfnuð.


Black Sand Hotel: Til marks um framtíðarsýn

Eitt skýrasta dæmið um þetta er nýja hótelið sem rís nú á Óseyrartanganum og bætist þar við önnur öflug ferðaþjónustufyrirtæki í Ölfusi. Black Sand Hotel er ekki einfaldlega „enn eitt hótelið“ heldur táknmynd þeirrar framtíðarsýnar sem við í Ölfusi höfum markað í samstarfi við stórhuga frumkvöðla. Hótelið, sem opnar innan skamms, er fyrsta boutique-hótelið við sjávarsíðuna á Íslandi og staðsett á einni fegurstu náttúruperlu svæðisins: Svörtu ströndinni okkar. Þar verða 70 herbergi og níu lúxus-svítur, öll hönnuð af fagmennsku og virðingu fyrir umhverfinu sem umlykur byggðina okkar.

Herbergin eru hlýleg og undirstrika náttáruna án þess að keppa við hana.

ÓMUR og Spa

Við hlið hótelsins opnar veitingastaðurinn ÓMUR, með sterkri norrænni matargerð og rými sem gerir gestum kleift að njóta þess besta sem svæðið býður upp á. Þar við bætist SPA sem uppfyllir allar væntingar nútímaferðamanns og fagurkera: gufa, sánur, kaldarlaugar og jarðhitalaugar, ásamt rými fyrir meðferðir og jóga. Þetta er þjónusta sem við höfum lengi vitað að skorti í uppbyggingu ferðaþjónustunnar hér, og nú er loks verið að brúa þá eyðu.

Veitingastaðurinn ÓMUR og ÓMURbar styður við hótelið og hækka þjónustustigið á nærsvæðinu.


Sterkari stoðir fyrir samfélagið - kraftur einkaframtaksins

Það þarf ekki að fara í grafgötur með það: Þetta verkefni, sem er alfarið á herðum öflugra einkaaðila, mun styrkja sveitarfélagið. Framkvæmd sem þessi minnir okkur enn og aftur á mikilvægi þess að kraftur frumkvöðlanna sé ekki drepinn í dróma af skattagleði, íþyngjandi kvöðum og seinvirku kerfi. Hótelið mun skapa okkur öllum aukna velferð með störfum, nýjum tækifærum og aukinni þjónustu. Meiri umferð ferðamanna þýðir aukna verðmætasköpun, aukna velferð og sterkari stoðir undir fjölda atvinnugreina.

Sólsetrið í þeirri pardís sem svarta fjaran við Þorlákshöfn er einstakt.

Ölfus er undirbúið fyrir framtíðina

Við hér í Ölfusi höfum markað okkur skýra stefnu: að byggja upp sterkt, fjölbreytt og sjálfbært samfélag sem stendur á traustum atvinnugrundvelli. Samfélag sem sækir velferð á grundvelli verðmætasköpunar. Hótelið er hluti af þeirri stefnu, ekki einhver tilviljunarkennd framkvæmd, heldur meðvituð og mótuð ákvörðun sem fellur fyllilega að framtíðarsýn okkar. Ég er stoltur af því að sjá hvernig þessi sýn er að raungerast, og ég er ekki í nokkrum vafa um að þetta sé aðeins upphafið.

Við erum tilbúin að taka á móti nýjum verkefnum, nýjum gestum og nýjum tækifærum. Og eins og áður munum við gera það saman, af festu, einurð, fagmennsku og þeirri sterku samfélagsvitund sem hefur alla tíð einkennt okkur.

Next
Next

Gott á óvenjulega fólkið