„Þorlákshöfn styrkir stöðu sína sem alþjóðleg vöruhöfn – stefnumarkandi risa samningur við Torcargo“
Í dag var undirritaður samningur á milli sveitarfélagsins Ölfuss og flutningafyrirtækisins Torcargo um reglubundnar áætlunarsiglingar til og frá Þorlákshöfn. Samkomulagið nær jafnframt til samstarfs um áframhaldandi uppbyggingu á hafnarsvæðinu. Torcargo hefur einnig keypt fyrirtækið Kuldabola ehf. í Þorlákshöfn sem rekið hefur um árabil öflugt frystivöruhótel á hafnarsvæðinu auk löndunar- og flutningsþjónustu innanlands. Gert er ráð fyrir að fyrsta skip Torcargo, Idunn, komi til Þorlákshafnar frá Rotterdam þann 9. júní næstkomandi og marki þar með upphaf nýju siglingaleiðarinnar.
Samningur undirritaður milli Þorlákshafnar og Thorcargo.
Mikil uppbygging hefur átt sér stað á hafnarsvæði Þorlákshafnar síðustu mánuði og misseri til þess að skapa þar fyrsta flokks aðstöðu fyrir afgreiðslu vöruflutningaskipa og gámaþjónustu. Torcargo mun nýta aðstöðuna sem aðalhöfn sína á Íslandi í áætlunarsiglingum á milli Íslands og meginlands Evrópu. Náttúrulegar aðstæður með miklu dýpi gera getu hafnarmannvirkjanna til þess að taka stór fraktskip -allt að 200 metra löng- að bryggju og þjónusta þau á rúmgóðu gámasvæði einkar góða.
Þorlákshöfn hefur stækkað og vaxið gríðalega seinustu ár. Þegar starfsemi Thorcargo verður komin á full afköst til viðbótar við rekstur Smyril Line geta inn og útflytjendur valið milli a.m.k. fimm skipta í reglulegum flutningi milli Evrópu og Þorlákshafnar.
Torcargo hefur sinnt áætlunarsiglingum og alþjóðlegri flutningsmiðlun í hartnær tuttugu ár. Í dag rekur félagið einnig eigin flutningsþjónustu í lofti undir merkjum Odincargo auk eigin landflutninga innanlands. Starfsemin grundvallast öll á því upphaflega meginmarkmiði stofnenda félagsins að fara ótroðnar slóðir í flutningsþjónustu við íslenskt atvinnulíf til þess að hámarka gæði og lágmarka kostnað.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss: „Á síðustu árum hefur samfélagið hér varið miklum fjármunum í uppbyggingu hafnarmannvirkja í þeim tilgangi að treysta innviði og skapa sóknarfæri. Þessi samningur er næsta skref í sókninni og enginn vafi er á að samvinnan við Torcargo verður mikil lyftistöng fyrir umsvif og frekari uppbyggingu hafnarsvæðisins á næstu árum. Engum dylst að höfnin hér er mikilvægasta fjöregg atvinnulífs og verðmætasköpunar í Þorlákshöfn og sveitarfélaginu öllu auk Suðurlandsins í heild sinni. Þessi hraustlega innkoma Torcargo með sína metnaðarfullu framtíðarsýn skiptir okkur miklu máli.“
Stefán H. Stefánsson, forstjóri Torcargo: „Aðstaðan í Þorlákshöfn er í okkar huga ákaflega vel í sveit sett sem miðstöð flutningaþjónstu fyrir okkur og ýmsa aðra atvinnustarfsemi á komandi árum. Þetta er rökrétt skref fyrir vaxandi umsvif okkar og með fjárfestingunni í starfsemi Kuldabola tryggjum við ekki einungis undirstöður núverandi þjónustu heldur sýnum einnig í verki þá miklu trú sem við höfum á framtíðartækifærum svæðisins.“