Súrefni fyrir framtíðina – Ný verksmiðja Veldix í Þorlákshöfn
Það er spennandi tími í Þorlákshöfn og í sveitarfélaginu Ölfusi. Í morgun skrifuðum við undir samkomulag um úthlutun lóða innan grænna iðngarða við Þorlákshöfn til fyrirtæksins Veldix sem hyggst koma hér upp starfsemi sem tryggja mun að lágmarki 20 störf auk þess að skapa öðrum fyrirtækjum samkeppnisforskot. Með örum vexti laxeldis, fjölbreyttri atvinnuuppbyggingu og nýjum verkefnum er ljóst að svæðið er í stórsókn. Eitt af þessum verkefnum er bygging súrefnisverksmiðju á vegum fyrirtækisins Veldix – verkefni sem mun ekki aðeins efla atvinnulífið heldur styrkja stoðir samfélagsins til framtíðar.
Við undirritun lóðaúthlutunar. Á myndinni eru þeir Elliði Vignisson, bæjarstóri, Ívar Örn Lárusson framkvæmdastjóri Veldix og Sigurður Steinar Ásgeirsso, skipulagsfulltrúi.
Hlekkur í vaxtarsögu Ölfuss
Veldix hyggst byggja súrefnisverksmiðju í Þorlákshöfn sem í fyrstu áfanga mun framleiða 30 til 60 tonn af súrefni á dag. Þetta þarf að skoða í samhengi við þá miklu súrefnisþörf sem áætlað er að fylgi uppbyggingu í laxeldi í Ölfusi sem og öðrum matvælatengdum verkefnum – þegar öll áform verða komin til framkvæmda er súrefnisþörfin talin verða allt að 300 tonn á dag. Verksmiðjan er því mikilvægur hlekkur í að styðja við þessa atvinnugrein og tryggja að innviðir haldi í við vöxtinn.
Tvær lóðir tryggja framtíðarmöguleika
Sveitarfélagið Ölfus hefur nú þegar úthlutað Veldix tveimur lóðum undir iðnaðar- og atvinnustarfsemi, við Laxabraut 25 og 27. Þessar lóðir eru samanlagt rúmlega 14.000 fermetrar og skapa sterkan grunn fyrir uppbygginguna. Með þessu erum við ekki aðeins að laða að nýja atvinnustarfsemi heldur einnig að skapa rými fyrir framtíðarvöxt og fjölbreyttari atvinnu á svæðinu.
Umræddar lóðir eru við Laxabraut 25 og 27. Þrátt fyrir að teljast með stærstu iðnaðarlóðum þá láta þær lítið yfir sér í námunda við fiskeldisfyrirtækin.
Frá fjórum í tuttugu störf
Veldix var stofnað árið 2023 og hefur frá upphafi starfað í smásölu á gasi og framleiðslu á gastegundum úr andrúmslofti, svo sem súrefni, köfnunarefni og argoni. Fyrirtækið hefur höfuðstöðvar í Hafnarfirði en hyggst flytja þær til Þorlákshafnar samhliða uppbyggingunni. Í dag eru fjórir starfsmenn hjá Veldix, en áætlað er að þegar starfsemin verður komin á fullt muni störfin fjölga í um 20. Þessi fjölgun starfa er kærkomin fyrir samfélagið okkar og styður við markmið okkar um fjölbreytt og öflugt atvinnulíf.
Ívar Örn Lárusson, stofnandi og framkvæmdastjóri Veldix, ásamt Einari Þór Guðmundssyni, sölu- og markaðsstjóra.
Fyrirtæki með breiða þjónustu
Þjónusta Veldix nær víða – frá matvælaframleiðslu og heilbrigðisþjónustu yfir í sundlaugar og ýmsan iðnað. Það undirstrikar hversu fjölbreytt áhrif slík fyrirtæki geta haft, ekki aðeins í sjávarútvegi heldur á ýmsum öðrum sviðum samfélagsins.
Jarðvegsframkvæmdir hefjast í sumar
Áætlað er að jarðvegsframkvæmdir við verksmiðjuna hefjist nú í sumar og að starfsemi hefjist um 18 mánuðum síðar. Þetta verkefni er mikilvæg innspýting í atvinnulíf Þorlákshafnar og Ölfuss og styrkir stöðu okkar sem leiðandi sveitarfélags í uppbyggingu iðnaðar og atvinnu á Suðurlandi.
Áframhaldandi sókn
Þessi uppbygging er enn eitt dæmið um þá sókn sem sveitarfélagið okkar er í. Með því að skapa hagstætt umhverfi fyrir ný fyrirtæki, bjóða upp á góða aðstöðu og styðja við atvinnusköpun erum við að leggja grunn að sterkari og sjálfbærari framtíð.