Er eðlilegt að verkamaður þurfi að vinna í 3 vikur bara til að borga framlag sinnar fjölskyldu til Hörpunnar?
Ríkisstyrkir til reksturs Hörpunnar eru áætlaðir 1.500 milljónir á ári eða 4.710 kr á hvern Íslending.
Án þess að ég hafi lagst í mikla rannsóknarvinnu þá rekur mig minni til þess að...
...verkamaður vinni gjarnan um 144 stundir á mánuði og miðað við launaseðilinn hennar móður minnar (hef reyndar bara rúmlega árs gamlan seðil þannig að etv. hafa launin hækkað lítilega) þá eru tímalaunin um 1020 kr. Berstípuð mánaðarlaunin eru um 147.220 kr.
Eins og aðrir launþegar greiðir fiskverkafólk tekjuskatt upp á 22,9% (fyrsta skattþrep). Persónuafsláttur er 44.205 kr. Greiddur tekjuskattur á mánuði er því 23.513 krónur.
Gefum okkur að verkamaður sé með fjögurramanna fjölskyldu og yngsta barnið sé það ungt að annað foreldrið sé heimavinnandi. Hann er því „ábyrgur“ fyrir kostnaði allrar fjögurramanna fjölskyldunnar við Hörpuna eða samtals 18.840 krónum á ári.
Þessi verkamaður þarf því að vinna í um þrjár vikur á ári bara til að vinna inn fyrir sköttum sem greiða kostnað hans fjölskyldu við Hörpuna.
Skyldi þessi framkvæmd og núverandi rekstur hennar vera í mikilli sátt við þennan verkamann?
ES.
Eins og þeir sem þetta lesa er ég meðvitaður um að hér er um einföldun að ræða. Vil líka biðja fólk í guðanna bænum um að hlífa mér við réttlætingu á verkefni sem ofangreindu ef slíkt felur í sér samanburð við kostnað vegna samgangna, menntakerfis, heilbrigðiskerfisins og þar fram eftir götunum. Ríkið á að standa myndalega að grunnþáttum eins menntun, löggæslu, samgöngum og heilbrigðisþjónustu en fara varlega (og sparlega) í góðærispjakk eins og tónlistahöll.