Bréf frá ''100 köllum'' og svör frá bæjarfulltrúum
Vestmannaeyjabæ barst bréf frá "100 köllum" í gær. Spurningarnar hafa komið fram í fjölmiðlum í dag. Þar er fyrst og fremst verið að kanna afstöðu Vestmannaeyjabæjar til Þjóðhátíðar auk þess sem bréfritarar lýsa áhyggjum af ofbeldisbrotum á þjóðhátíð.
Svör okkar eru svo hljóðandi:
Þjóðhátíðin er fjölskylduhátíð Eyjamanna
Bæjarfulltrúar í Vestmannaeyjum þakka bréfriturum þann áhuga sem þeir hafa á öryggismálum á Þjóðhátíðinni í Vestmannaeyjum. Þeir segja það samfélagslega ábyrgð okkar allra að hindra að ofbeldisverk séu framin. Því erum við sammála.
Undirrituð deila með bréfriturum áhyggjum á því samfélagslega meini sem kynferðisofbeldi er, enda er það með alvarlegri brestum í mannlegum samskiptum. Því er mikilvægt að einskis verði látið ófreistað til að sporna gegn því.
Bréfritarar segja: „ábyrgð nauðgunar getur aldrei legið annarsstaðar en hjá gerandanum sjálfum. Það er sorglegt að tiltölulega fámennur hópur ofbeldismanna geti valdið svo miklum skaða og varpað um leið dökkum skugga á viðburð sem annars er ætlaður til ánægju“. Bæjarfulltrúar í Vestmannaeyjum taka heilshugar undir þetta enda er eitt af markmiðum þeirra að draga úr og reyna eftir fremsta megni að koma í veg fyrir ofbeldi, hvert svo sem brotið er.
Bæjarfulltrúar munu veita heimild fyrir Þjóðhátíð komandi sumar eins og síðustu 130 ár. Þjóðhátíðin er fjölskylduhátíð Eyjamanna þar sem áhersla er lögð á byggðasögulegar rætur svo sem tónlistarhefð, matarvenjur og hefðir sem mótast hafa á seinustu öldum. Sjálf erum við þátttakendur í hátíðinni með börnum okkar og ástvinum. Bæjarfulltrúar munu því gera allt sem í þeirra valdi stendur til að upplifun gesta Þjóðhátíðar verði eins jákvæð og kostur er. Þar undir falla forvarnir gegn ofbeldisbrotum sem eru og eiga ávallt að vera forgangsmál.
Vegna atvika sem hafa komið upp hafa forvarnir verið til sérstakrar skoðunar og þar er markmið Vestmannaeyjabæjar að koma í veg fyrir þann harmleik sem hvert og eitt brot er.
Undirrituð taka undir með bréfriturun sem segja að „ábyrgð nauðgunar getur aldrei legið annarsstaðar en hjá gerandanum sjálfum. Það er sorglegt að tiltölulega fámennur hópur ofbeldismanna geti valdið svo miklum skaða og varpað um leið dökkum skugga á viðburð sem annars er ætlaður til ánægju“.
Rétt eins og bréfritarar líta bæjarfulltrúar í Vestmannaeyjum ofbeldi alvarlegum augum enda er það aldrei líðandi.
Páley Borgþórsdóttir
Elliði Vignisson
Jórunn Einarsdóttir
Gunnlaugur Grettisson
Páll M. Jónsson
Gunnlaugur Grettisson
Páll S. Ingvarsson
Guðlaugur Friðþórsson