Samfélagsleg sátt rofin

Á Íslandi er bara ein borg, hún heitir Reykjavík.  Mikilvægi hennar fyrir þjóðina er mikið.  Í gegnum styrk hennar vegum við upp aðdráttarafl erlendra borga.  Þar höfum við byggt upp stjórnsýsluna, fjármálakerfið, dómskerfið, helstu menningarstofnanir, helstu háskólastofnanir, sérhæfða heilbrigðisþjónstu og annað það sem þjóðin þarf á að halda.  Til grundvallar þessu liggur ákveðin samfélagssátt.  Í grófum dráttum er sáttin fólgin í því að landsmenn sameinist um þessa uppbyggingu –þótt stundum sé það með semingi- og á móti gegni borgin ákveðinni höfuðborgarskyldu.  Bregðist borgin þessari skyldu er hætt við að sáttin rofn 

Aðgengið skiptir máli

Meðal helstu skyldu borgarinnar er að auðvelda landsmönnum öllum aðgengi að þessum sameiginlegu stofnunum.  Aðgengi landsmanna að þjónustunni í borginni er í lang flestum tilvikum háð flugi og/eða einkabílum.  Núverandi borgaryfirvöld hafa hinsvegar með einbeittum hætti lagt risavaxnar hindranir í veg utanbæjarfólks með árásum á þetta aðgengi.  Fyrst með fordómum gagnvart einkabílnum og svo með fordæmalausum árásum gegn þeirri lykilæð sem Reykjavíkurflugvöllur er. 

Bregðast skyldum sínum

Vafalaust þykir nú einhverjum sem ég seilist langt með kröfum gagnvart höfuðborginni.  Ég er jú af landsbyggðinni og ætti sennilega í huga einhverra að halda mig til hlés þegar kemur að borgarmálum.  Það er þó í mínum huga ekkert óeðlilegt að ég sem kjörinn fulltrúi á landsbyggðinni bendi á að núverandi borgaryfirvöld eru að bregðast skyldu sinni sem leiðtogar höfuðborgarinnar og þar með að vega að þeim samfélagssáttmála sem ríkt hefur.

Við leggjum öll til uppbyggingar í Reykjavík

Við eigum nefnilega öll jafna heimtingu á þjónustu ríkisstofnana sem greiddar eru af okkar sköttum a.m.k. til jafns á við það sem gengur og gerist meðal borgarbúa.  Íbúar í Vestmannaeyjum greiða 5527 milljónir á ári umfram það sem ríkið nýtir í nærþjónustu í Vestmannaeyjum.  Þannig er sagan víða um land.  Þetta fé nýtist að mestu leyti í uppbyggingu á þeirri miklu þjónustu sem er í höfuðborginni. 

Sjálfsagður réttur að geta nýtt hina sameiginlegu þjónustu

Við á landsbyggðinni hljótum að gera ráð fyrir því að það þyki sjálfsagður réttur okkar að geta á einfaldan og aðgengilegan máta nýtt okkur þá þjónustu sem við öll greiðum fyrir.  Við viljum að hægt sé að fljúga sjúkum sem næst sérhæfðri hjúkrunarþjónustu.  Við viljum geta á sem greiðastan máta ekið til Reykjavíkur og komist á okkar einkabíl að stofnunum og fengið þar bílastæði.  Við þurfum að geta flogið með almenningsflugi í borgina, sinnt þar erindum og komist sem fyrst til okkar heima.  Við viljum að borgin sinni þeirri skyldu sem nauðsynleg er og beri virðingu fyrir hlutverki sínu sem höfuðborg okkar allra.

Virða á sáttmálann

Á sama máta viljum við að borginni sé vel stjórnað og að sómi sé af henni.  Hún er höfuðborg allrar þjóðarinnar, andlit okkar og gróðurmold margra tækifæra allra landsmanna.  Við viljum að borgin sé sterk og þar þrífist öflugt mannlíf.  Þótt sannarlega teljum við mörg að fastar mætti stíga fram í að dreifa ákveðnum störfum um landið þá erum við algerlega tilbúin til að halda áfram þeim allra stærsta byggðastyrk í sögu þjóðarinnar sem fólgin er í því að þjappa saman stjórnsýslu og lykilstofnunum í Reykjavík.  Okkur þykir á sama máta sjálfsagt að höfuðborgin okkar hafi ríkan rétt sem slík og þar á meðal að samráð sé haft við stjórnendur hennar og íbúa um þær ákvarðanir ríkisstjórnarinnar og þings sem snerta mikilvæga hagsmuni borgarbúa, svo sem atvinnutækifæri, skipulag og yfirbragð.  Allt þetta er þó með fyrirvara um að borgaryfirvöld virði þann óskrifaða samfélagssáttmála sem í gildi hefur verið áratugum saman.

Fordæmalaus skref í átt að rofi á samfélgssáttmála

Borgarstjórn Reykjavíkur undir stjórn Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata hafa stigið fordæmalaus skref í átt að rofi á samfélagssáttmála um hlutverk höfuðborgarinnar.  Það er áhyggjuefni ef áfram skal halda í þá ógæfuátt.  Staðreyndin er sú að þótt á stundum kunni okkur að greina á um áherslur þá þurfum við hvert á öðru að halda, íbúar í landsbyggðunum og íbúar í borginni.  Við erum heilt yfir hvert öðru velviljug.  Grunnurinn að áframhaldandi sátt er að borgaryfirvöld sinni hlutverki sínu og sjái sérstaklega sóma inn í því að hindra ekki íbúa landsbyggðarinnar í því að sækja þangað hina sameiginlegu þjónustu.

Previous
Previous

Hversu vel stendur ríkið við bakið á afrksíþróttafólki?

Next
Next

Skattaspor Vestmannaeyja