Hætt við að verið sé að skattleggja flug af markaðnum
Flug skiptir Eyjamenn og marga aðra íbúa á landsbyggðinni miklu. Gjöld og skattar á þessa undirstöðuþjónustu eru hinsvegar á góðri leið með að ganga af henni dauðri.
Hækkun um hundruðir milljóna
Á kynningarfundi með notendum innanlandsflugskerfisins 5. janúar voru kynntar gífurlega miklar hækkanir á notendur innanlandsflugvalla. Þannig munu...
...lendingargjöld á Reykjavíkurflugvelli hækka um 72% og farþegagjöld á sama flugvelli hækka um 71%, auk þess mun flugleiðsögugjald hækka um 22%. Samtals munu þessar hækkanir þýða yfir 100 milljóna króna kostnaðaraukningu fyrir Flugfélag Íslands á þessu ári. Boðaðar hafa verið frekari hækkanir á næsta ári sem mun, ef af verður þýða aftur hækkun uppá 150 milljónir króna.
Gjöld hafa þegar tvöfaldast
Íbúar og þjónustuaðilar á landsbyggðinni sem búa við þær aðstæður að þurfa að stóla á flug hafa sannarlega fundið fyrir hækkunum undanfarinna ára. Ákvarðanir þar að lútandi hafa verið verulega íþyngjandi og er nú svo komið að á undanförnum 3 árum hafa gjöld sem eingöngu tengjast notkun flugvalla í innanlandskerfinu tvöfaldast eins og sjá má meðfylgjandi töflu.
Opinber gjöld samtals:
milljónir króna 2009 2010 2011 2012 (áætlun)
Farþegaskattar: 146 141 174 240
Lendingargjöld: 61 77 95 123
Leiðarflugsgjald 9 37 50
Kolefnisgjald: 17 30 30
Samtals 207 244 336 443
Hækkun í % m.v. 2009 -- 18% 62% 114%
Fækkun farþega m.v. 2009 -6% -2% -2%
Þannig greiddi Flugfélag Íslands árið 2009 um 207 milljónir króna í farþega- og lendingargjöld en áætla má að á árinu 2012 verði þessi kostnaður um 443 milljónir króna og eru þá meðtalin flugleiðsögugjöld og kolefnisgjald en þau gjöld eru ný gjöld sem ekki voru til árið 2009.
Tvísköttun
Auk ofangreindra gjalda bætist á flugið frá síðustu áramótum svokallað útblástursgjald undir hatti hins samevrópska ETS (Emission Trading Scheme) kerfis. Ekki er tekið tillit til þessara álaga með því að fella niður kolefnisgjaldið á móti og mun það vera einstakt að rukkað sé umhverfisgjald bæði þegar eldsneyti fer á flugvélar og síðan aftur þegar notkun er lokið.
Helmingur hækkunar á Erni lenda á Eyjum
Sé litið sérstaklega til Vestmannaeyjaflugs dökknar myndin enn frekar. Fyrirhugaðir skattar og álögur hins opinbera (og hálf opinbera s.s Isavia OHF) á Erni verða um 120 milljónir á næsta ári (fyrir utan skatta og skyldur vegna starfsmanna) ef fram fer sem horfir. Slíku verður af sjálfsögðu velt úr í verðlag. Miðað við hlut Vestmannaeyja í flutningum Flugfélagsins Ernis á farþegum má gera ráð fyrir að um helmingur hækkunarinnar lendi á flugleiðinni Reykjavík – Vestmannaeyjar - Reykjavík, vegna fjölda farþega og tíðni ferða. Þessir skattar munu sennilega kosta um 1600 krónur á hvern farþega á árinu 2012 og vel yfir 2000 kr árið 2013.
Allir tapa ef fyrirtækin gefast upp
Vandséð er hvernig fyrirtæki eins og Ernir geta staðið undir þessu skattahelsi enda ofangreidd gjöld viðbót við alla aðra skatta sem fyrirtækið leggur til með starfsemi sinni eins og tryggingagjaldinu og öðrum sköttum og gjöldum. Gefist fyrirtækið upp vegna þessa tapar ríkið þessum skatttekjum, tugir (stundum hundruð) missa vinnuna og mikilvæg þjónusta leggst af.
Kollsteypa
Eftir samdrátt í farþegaflutningum innanlands í kjölfar hrunsins 2008 var á árinu 2011 farið að nást nokkuð jafnvægi í flutningum, það er hinsvegar ljóst að með þessum fyrirhuguðu gjaldahækkunum er verið að kollsteypa framtíð innanlandsflugsins. Innanlandsflugið er eina almenningssamgöngukerfið á milli landshluta sem notað er að einhverju marki auk þess að vera mun umhverfisvænni en helsti valkostur farþega sem er einkabíllinn.
Óþolandi að borga hærri skatta af því að nota þjónustu sem sameiginlegir sjóðir allra eru nýttir í
Þá má augljóst telja að hækkun fargjalda í innanlandsflugi á eftir að valda enn frekari tregðu hjá forsvarsmönnum ríkisstofnana við að flytja störf út á land. Nógu mikil er sú tregða fyrir, þrátt fyrir loforð þeirra sem stjórna eiga landinu. Sú stefna sem unnið hefur verið eftir á undanförnum áratugum, viljandi eða óviljandi, að ná fram stærðarhagkvæmni með aukinni miðstýringu í gegnum stór-Reykjavíkursvæðið, verður til þess að góðar samgöngur við höfuðborgina verða sífellt mikilvægari. Það er óþolandi að þurfa í sífellu að borga hærri skatta af því að fá að nota þjónustu sem sameiginlegir sjóðir okkar allra eru nýttir í. Það er algjört lykilatriði að landsmenn allir fái að njóta þeirrar hagkvæmni sem sögð er af því að hafa allar lykilstofnanir og –fyrirtæki ríkisins á sama stað. Til þess þarf að auðvelda aðgengi, en ekki torvelda það með stórkostlegum hækkunum á gjöldum af innanlandsflugi.
Endurskoða þarf hækkanir
Það er því ástæða til að skora á stjórnvöld að endurskoða þessar miklu hækkanir, samneyti landsbyggðar og höfuðborgar mun ekki geta vaxið og dafnað nema hagkvæmar og góðar samgöngur verði lykilþáttur í slíkri vegferð.