Skemmtilegir frambjóðendur, nokkur dæmi.
Að vera skemmtilegur stjórnmálamaður án þess að detta út í kjánaskap er sérstök list sem getur gert kraftaverk í kosningabaráttu. Þetta hljómar einfalt en dæmin hafa sannað að svo er ekki. Sá hæfileiki að vera fyndinn, mannlegur og áhugaverður, án þess að fórna trúverðugleikanum er í raun sjaldgæfur. Húmor og lífsgleði sem er rétt notuð, getur skapað sterkari tengsl við fólk og aukið vinsældir frambjóðenda. Í þessu samhengi langar mig að vekja athygli á fimm ólíkum frambjóðendum og hvetja fólk til að fylgjast með framgöngu þeirra. Auðvitað þekki ég fjöldan allan af þingmönnum sem eru virkilega skemmtilegt og gott fólk en ná ef til vill ekki að sýna það jafn vel og það fólk sem ég vil hér hrósa og gera að umtalsefni. Þetta eru þau: Jens Garðar Helgason, Brynjar Níelsson, Ingibjörg Ísaksen, Snorri Másson, Inga Sæland og Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Ólíkt fólk með ólíkan styrk en eiga það sameiginlegt að kunna þá list að vera mannleg, létt og skemmtileg án þess að verða kjánaleg.
Fólk er misskemmtilegt. Leiða má líkur að því að aukin eftirspurn sé eftir frambjóðendum sem kunna þá list að vera létt, hlý og skemmtileg.
Stjórnmálamaður sem er fyndinn og afbragðsgóður sögumaður
Jens Garðar Helgason er líklega einn besti sögumaður og gleðipinni sem stjórnmálunum hefur áskotnast. Hann nýtir frásagnarhæfileika sína til að fanga athygli fólks og koma boðskap sínum á framfæri á afslappaðan og skemmtilegan hátt. Að segja góða sögu á réttum tíma getur hjálpað til við að slaka á andrúmsloftinu og skapa dýpri tengingu.Hann gefur ekki afslátt af þunga málefna en rammar þau oft inn í húmorískar umbúðir. Í senn kann hann þá list að nýta ekki tímann sem annað fólk talar til að hugsa hvað hann ætlar næst að segja, heldur í raun og veru að hlusta. Þessi hæfileiki gerir það að verkum að kjósendur tengja við hann sem einstakling, ekki bara sem embættismann á Alþingi.
Beittur húmor sem vopn
Brynjar Níelsson er þekktur fyrir að vera bæði kaldhæðinn og hnyttinn. Hann notar húmor til að skjóta á andstæðinga og jafnvel samherja, setur málefni í skiljanlegan búning, svarar gagnrýnendum á mannamáli og brýtur flókin efni á niður í form sem fólk skilur. Hann er óhræddur við að hafa skoðun og vera trúr henni, janfvel þegar það er tímabundið ekki vinsælt. Hann er líka algerlega óttalaus þegar kemur að því að gera grín og lætur sér í léttu rúmi liggja þótt góða fólkið móðgist fyrir annarra hönd. Það gerir hann að áhugaverðum viðmælanda sem fólk vill hlusta á, jafnvel þótt það sé ekki alltaf sammála honum.
Jákvæðni sem lykill að árangri
Ég gæti haldið lengi áfram að telja upp skemmtilega Sjálfstæðismenn og fæ í raun samviskubit yfir því að fjalla ekki sérstaklega um Diljá Mist, Gulla Þór og fl. Ég ætla þó heldur að skyggnast yfir flokkslínuna og nefna Ingibjörgu Ísaksen, sem alltaf virðist í góðu skapi. Það er erfitt að horfa fram hjá jákvæðninni hennar, sem hefur þann eiginleika að lýsa upp hvert rými sem hún kemur inn í. Hún hefur fundið leið til að nýta glaðværð sína á áhrifaríkan hátt í pólitík, þar sem hún skapar góða stemmingu og vekur jákvæðar tilfinningar hjá fólki. Í heimi stjórnmálanna, þar sem andstæðingar skiptast oft á hörðum orðum, getur brosið verið eitt sterkasta vopnið. Þennan þráð finnst mér ég oft einnig finna einnig hjá Ingu Sæland. Hún er að öðru leyti ekkert lík Inginbjörgu. Hún býr yfir einhverjum léttleika sem er hlýr og mannlegur, undir hárbeittum ákúrum – dálítið eins og Soffía frænka í Kardimomubænum. Svona... hlýtt fussumsvei. Krúttleg reiði. Húmorískar eðalskammir.
Sérlundaður en viðkunnanlegur
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur náð að gera sérlund sína að styrk. Hann er óhræddur við að sýna húmor sinn á persónulegan og einlægan hátt, sem gerir hann bæði skemmtilegan og viðkunnalegan. Hann tekur sjálfan sig ekki alltaf of hátíðlega og nýtir þá eiginleika til að láta fólk brosa, jafnvel í alvarlegum umræðum. Langa leiðir má sjá að hann elskar leikinn. Það var reyndar forkastanlega bjánalegt þegar hann settist út í móa að borða hrátt hakk fyrir athyglina. Einmitt dæmi um það þegar tilraun til athygli gerir frambjóðendur kjánalega. Það skrái ég á kosningastjóra hans frekar en á Sigmund Davíð. Ég get ekki látið hjá líða án þess að nefna úr sömu átt nýframbjóðandann Snorra Másson. Yfir honum er húmorískt blik og bros sem kætir. Í samræmi við ungan aldur er dálítil svona „búningsklefa stemming“ yfir honum sem mér þykir virka vel. Hann er prúðmannlegur og vel máli farinn en hikar ekki við grín og glens þannig að stundum finnst mér eins og ég þekki hann betur en ég í raun geri.
Að taka mið af réttum stað og stund
Í samtímanum hefur orðið nauðsynlegt fyrir stjórnmálamenn að mæta kjósendum á nýjum miðlum eins og TikTok, Instagram, LinkedIn og fl. Þar geta þeir náð til yngri kjósenda sem ekki fylgjast endilega með hefðbundnum pólitískum umræðum. En þetta er hægara sagt en gert, því það er auðvelt er að misreikna sig og verða kjánalegur í stað þess að vera skemmtilegur. Það er gott dæmi um hvernig það sem virðist góð hugmynd til að ná athygli getur snúist í höndum þeirra sem ekki hafa vald á húmornum. Fátt er jafn hallærislegt eins og þegar stjórnmálafólk lendir í „Hey fellow kids“. Þykist vera eitthvað sem það er ekki. Ég þori að veðja stórum bjór á að þó nokkrir frambjóðendur eru að fara að lenda í þeirri gryfju á Tiktok og víðar.
Húmor í stjórnmálum er listgrein sem þarf að þjálfa ef það er fólki ekki eðlislægt. Það þurfa ekki allir að vera brandarakallar en léttleiki og manneskjulegt viðmót hjálpar. Jens, Brynjar, Ingibjörg, Inga, Snorri og Sigmundur hafa sýnt að það er hægt að vera skemmtilegur og sannfærandi án þess að fórna persónuleikanum eða trúverðugleikanum. Þau kunna að vera hlý og skemmtileg á þann hátt að fólk hlær með þeim, ekki að þeim. Það er sú hæfni sem gerir þau að bæði vinsælum og áhrifamiklum stjórnmálamönnum, og sú list sem aðrir frambjóðendur í komandi kosningum ættu að reyna að tileinka sér án þess af gefa afslátt af sínum eigin persónuleika.