Skipulag sem skapar frelsi - fjölbreytt framboð af húsnæði.
Áherslur sveitarfélaga í skipulagsmálum eru afar ólíkar. Það er að mörgu leyti gott enda skapar slíkt sérkenni og eykur val fólks og frelsi þeirra þegar kemur að búsetu. Í Sveitarfélaginu Ölfusi hefur sú leið verð farin að nýta skipulagsmál til að stuðla að blandaðri íbúasamsetningu – þar sem stórar og litlar íbúðir í fjölbýlum eru byggð í hlutfalli við séreignarlausnir. Trú okkar er að slík nálgun stuðli ekki aðeins að fjölbreyttu búsetuformi heldur einnig að samfélagslegri heild sem getur þróast og dafnað til lengri tíma. Að frelsi til vals á tegund heimilis auki velferð íbúa.
Í dag eru 230 íbúðir í byggingu í Þorlákshöfn. Áhersla er á að tryggja fjölbreytt framboð og auka þar með frelsi íbúa til að velja sér búsetuform.
Stórt eða lítið? Ölfus velur bæði
Í dag er búið að skipuleggja lóðir fyrir 1.117 íbúðir í Þorlákshöfn. Þar við bætist svo umtalsvert í skipulagi í dreifbýli Ölfus þar sem einnig fjölgar hratt. Af þessum 1.117 íbúðum eru 578 þeirra í sérbýli (52%) og 539 í fjölbýlishúsum (48%). Með sérbýli er hér vísað til einbýlishúsa, parhúsa og raðhúsa. Til fjölbýlishúsa teljast þá svokallaðar blokkir.
Fyrir ungt fólk, barnafjölskyldur og eldri borgara
Litlar íbúðir henta oft ungu fólki, fyrstu kaupendum og eldri borgurum sem vilja minnka við sig. Rýmri eignir svo sem einbýli, raðhús og parhús eru hins vegar oft ákjósanlegri fyrir stærri fjölskyldur, ekki hvað síst barnafólk. Sé ein gerð íbúða ráðandi – t.d. einblínt á stórar eða dýrar íbúðir eða litlar og ódýrar – þrengir það að möguleikum margra hópa til að festa rætur í viðkomandi bæjarhluta. Slíkt eykur hættuna á einsleitu samfélagi.
Til að mæta þörfum barnafjölskyldna er nú verið að byggja 4 til 6 deilda leikskóla sem opnar í september.
Ungt samfélag með sterka framtíðarsýn
Íbúasamsetning í Sveitarfélaginu Ölfusi er athyglisverð. Hér er meðalaldur lágur og árgangar barna fjölmennir. Hlutfallslega eru eldriborgarar fáir eða 10,55% og vel undir landsmeðaltali og talsvert langt undir nágranna sveitarfélögum.
Eitt af því sem ræður vifangsefnum sveitarfélaga er hlutfall eldriborgara. Í Ölfusi er meðaldur með því lægsta sem gerist hér á landi.
Tækifæri fyrir alla – sterkari samfélag
Bæjaryfirvöld hér í Ölfusi hafa lagt áherslu á að blanda saman íbúðum af ólíkri stærð og eignarformum – þar sem séreignir, leiguíbúðir og jafnvel búseturéttaríbúðir eru byggðar upp samhliða. Slíkt teljum við lykilatriði í því að skapa samfélag þar sem ólíkar kynslóðir og tekjuhópar geta búið saman. Slíkt skapar jafnvægi, styrkir félagsauð og eykur líkur á því að fólk vilji búa í samfélaginu til lengri tíma.
Í stuttu máli: Fjölbreytt íbúðagerð er ekki aðeins skipulagsatriði – hún er grundvöllur að góðu mannlífi.