Nýtum Sjómannadaginn til að segja: “takk fyrir stuðninginn, þolinmæðina og hugrekkið”
Það er ekkert smámál að byggja upp höfn í bæ sem heitir jú Þorlákshöfn. Hér er höfnin í blóðinu á fólkinu. Virðingin er einlæg. Í þessum góða bæ – og reyndar í Ölfusinu öllu – vita allir að þegar vel gengur við höfnina, þá gengur vel í bænum. Nú höfum við ástæðu til að staldra við og fagna þessum stóra áfanga í vexti hafnarinnar – og jafnframt að undirbúa okkur fyrir næsta skref. Við erum hvergi nærri hætt.
Sjómennska hefur frá örófi alda verið undirstaða byggðar í Þorlákshöfn. Þótt höfnin þróist nú hratt sem vöruhöfn þá er og verður sjómennska horsteinn að starfi hafnarinnar.
Stærri, sterkari, metnaðarfyllri Þorlákshöfn
Þeir sem hafa fylgst með undanfarin ár hafa séð hvernig bæjarlandslagið hefur tekið stórkostlegum breytingum. Það sem áður var fyrst og fremst öflug fiskihöfn er nú líka orðin ein stærsta vöruhöfn landsins. Melarnir eru orðnir vettvangur öflugra fyrirtækja og móarnir að heimilum fólks sem hefur valið Ölfusið sem sinn framtíðarstað. Þetta gerist ekki af sjálfu sér. Þetta er árangur af áræðni, frumkvæði og metnaði – bæði hjá sveitarfélaginu sjálfu og þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem hafa lagt sitt af mörkum. Á bak við velgengnina standa fyrst og fremst skýrar ákvarðanir bæjarfulltrúa og ómæld vinna íbúa.
Þessi mynd sýnir nokkuð vel hvernig staðan er í Þorlákshöfn í dag. Bærinn og ekki síst höfnin iðar af lífi og framtíðin byggist upp.
Já, það hefur blásið á móti – en við klárum þetta saman
Við vitum öll að stórframkvæmdir þýða líka rask og óþægindi. Það hefur gefið á bátinn á köflum, og við höfum þurft að taka á móti þeim öldum. Deilur hafa snúið að málum allt frá brimbrettaiðkun yfir í álitamál um það hvort að stækkun hafnarinnar til suðurs myndi skila tækifærum. Fjármögnun var um tíma erfið, bærinn nötraði undan sprengingum fyrir nýja viðlegukanta og auðvitað heyrðust úrtölu- og gagnrýnisraddir. En það sem skiptir öllu máli er að íbúar hafa staðið með okkur, sýnt einstaka þolinmæði og skilning. Þetta samfélag á skilið að fá eitthvað til baka – því þegar vel gengur, eiga allir að njóta.
Um tíma óttaðist brimbretta fólk um stöðuna. Í dag er jákvætt samtal milli hafnaryfirvalda og brimbretta fólks. Í nýlegu viðtali við “Fréttamolann” sagði nýr stjórnarmaður ma.: “Það þarf oft ekki marga til að skapa stemningu fyrir vondum múgæsingi sem oft verður til af röngum upplýsingum og allskonar misskilningi út frá því.”
Sjómannadagurinn 2025: Þetta verður hátíð sem lætur finna fyrir sér
Af virðingu fyrir stuðningi íbúa og sögu samfélagsins ætlum við ekki bara að halda einhverja venjulega sjómannadagshelgi í ár. Framkvæmda- og hafnarnefnd hefur ákveðið að bæta 1,5 milljónum í pottinn til að tryggja að þetta verði eftirminnileg helgi fyrir alla. Samhliða hvetjum við fyrirtækin við höfnina til að nýta tækifærið, stíga fram og sýna bæjarbúum hvað þau standa fyrir. Þetta er okkar leið til að segja: Takk. Takk fyrir stuðninginn, takk fyrir þolinmæðina og takk fyrir að gera þetta samfélag að því sem það er.
Við fögnum – því við eigum það skilið
Þetta snýst því ekki bara um að þakka fyrir framlag sjómanna og uppbyggingu við höfnina – þetta er hátíð samfélagsins alls. Þorlákshöfn er ekki bara á réttri leið; hún er komin á fullt skrið. Íbúarnir hér eru að gera stórkostlega hluti og það er þess virði að staldra við, horfa til baka og segja:
„Helvíti, erum við að standa okkur vel?“
Við sjáumst á Sjómannadeginum í Þorlákshöfn – það verður hátíð sem enginn vill missa af.