Þrettándinn í Eyjum, mögunð saga
Á laugardaginn ræddi ég við Rás 2 um Þrettándann hér í Eyjum.
Þrettándinn í Eyjum er í alla staði sérstakur. Ekki einunigs er meira lagt í hann hér í Eyjum en annarstaðar heldur á hann sér verulega merkilega sögu og skírskotun í siði og venjur bæði í miðevrópu og skandinavíu.
Ég tók mig til um helgina og...
...las feikilega skemmtilega BA rigerð í Þjóðfræði eftir Eyjakonuna Hrefnu Díönu Viðarsdóttur (dóttir Viðars og Láru Emils). Nafn ritgerðarinnar er: „Maður bíður meira eftir þrettándanum en eftir jólunum – Form, hlutverk og þróun þrettándans í Vestmannaeyjum“. Ekki eingöngu er ritgerðin listavel skrifuð heldur er innihald hennar slíkt að það heldur manni við lestur líkt og um skáldsögu væri að ræða. Slíkt er sjaldgæft með BA ritgerðir og ég fullyrði að fáir hafi lesið mína ritgerð (sem hét „Tölfræðileg og aðferðafræðileg stöðlun á gátlista DuPaul) af áhuga.
Það er magnað að lesa um sögu Þrettándans og hugsa til þess hvernig sá siður að grímuklæðast og fara á milli húsa í litlu sjávarþorpi upp úr 1900 blandast við blysfarir skáta og síðar Týrara og verður síðar að 3 daga bæjarhátíð með almennri þátttöku. Það er einnig stórkostlegt að sjá hvernig tröllin okkar og púkarnir eiga sér nánast fullkomna tilsvörun í td. verunni „Krampus“ í Austurríki og „nuuttipukki“ og „julebukk“ í skandinavíu. Margt annað afar athyglisvert er að finna í ritgerð Hrefnu Díönu.
Ég er óendanlega þakklátur okkar öfluga íþróttafélagi að hafa viðhaldið Þrettándanum öll þessi ár. Ég er afar stoltur af því að búa í bæjarfélagi þar sem hundruðir einstaklinga eru tilbúnir til að gefa tíma sinn og vinnu til að við getum staðið undir fögnuði á borð við Þrettándagleðina okkar. Ég er líka verulega glaður yfir því hversu almenn þátttaka okkar Eyjamanna er í því sem í boði er þessa daga. Gangan, gleðin á malavellinum, fjölskylduskemmtunin í íþróttamiðstöðinni, listasýningar, söfnin og allt annað var mjög fjölsótt. Fjölskyldur nýta sé þessi tækifæri og það er fyrir miklu.
Nú á ég mér þá óska heitasta að einver öflugur einstaklingur taki sig til og geri heimildarmynd um Þrettándann. Ég er viss um að RUV eða aðrar sjónvarpsstöðvar hafa áhuga á þessari sérstöku hefð okkar Eyjamanna og þá ekki síst þar sem hún á sér langa sögu hér í Eyjum og er með tilsvörun í siðum annarra þjóða sem í fyrstu kunna að virðast framandi. Ritgerð Hrefnu Díönu er sannarlega efni í slíka mynd.
Enn og aftur, djúpar þakkir til ÍBV íþróttafélags og þeirra sjálfboðaliða sem gerðu Þrettándann að veruleika.