Ull og hör: Óvænt gagnrýni á samfélagsmiðla og stjórnmál

Frá því að ég var barn hef ég stundum gluggað í Biblíuna. Það er eitt lítið vers í 3. Mósebók sem mér þótti ofboðaslega skrítið þegar ég hafði ekki getu til að kryfja málið. Þar stendur:

„Þú skalt ekki klæðast flík úr blönduðu efni, úr ull og hör.“ (3. Mós. 19:19)

Sem barn skildi ég ekkert í þessari tískuáherslu almættisins, og þegar ég var unglingur áttaði ég mig ekki á því hvernig þetta gæti blandast inn í siðaboðskap sem við berum með okkur í þúsundir ára. Svo rakst ég á þetta vers nýlega og skildi að auðvitað er þarna verið að tala um eitthvað miklu stærra. Eitthvað sem á jafnvel enn meira erindi til okkar núna. Eitthvað sem tengist bæði sálfræði og stjórnmálum, mínum tveimur helstu áhugasviðum.

Það er áhugavert að sjá hvernig marg þúsund ára sannleikur getur kjarnað bæði samfélagsmiðla og stjórnmál dagsins í dag.

Í versinu er ekki verið að tala um heilagleika heldur frekar heilleika. Það að vera heill og sannur. Carl Rogers, sálfræðingur hefði kallað þetta self-congruence eða samræmt sjálf. Í biblíulegri hugsun þýðir heilagleiki ekki að vera gallalaus, heldur að vera ekki klofinn. Að vera ekki tvöfaldur. Að lifa ekki þannig að orð, gildi og athafnir séu úr sitthvoru efninu.

 

Klofið sjálf skaðar fólk

Í gamla lífinu mínu, þegar sálfræðin átti hug minn allan, sá ég hvað sundrað sjálf gerir fólki. Það er oft ekki aðgerðin sem brýtur fólk niður, heldur réttlætingin. Þegar við þurfum stöðugt að halda uppi tveimur útgáfum af okkur sjálfum, þeirri sem við viljum að aðrir sjái og þeirri sem við lifum í raun. Þá þreytist sálin. Þá tekur við kvíði, óeirð, skömm og þreyta.

 

Þegar orð og athafnir hætta að þekkjast

Í nýja lífinu mínu sá ég þetta öðruvísi, en í annarri birtingamynd. Við sjáum öll stjórnmálafólk tala um ábyrgð en hlaupa svo undan sjálfu sér ef á slíkt reynir. Við sjáum fólk lofa breytingum sem aðlagast svo kerfinu hraðar en vatn lagast að keri. Við sjáum fólk tala hátíðlega um loftslagsmál en fljúga svo til Brasilíu, með tilheyrandi útblæstri, til að hitta annað fólk sem er líka að tala um loftslagsmál. Við sjáum fólk lofa að hækka ekki skatta, sem stendur ekki við það heldur notar bara önnur orð um það, svo sem „aðhald á tekjuhlið“. Dæmin eru um allt. Þetta er pólitísk útgáfa af því að klæðast flík úr tveimur efnum.

 

Svona deyr traust

Fólk finnur þetta og bregst við. Það þarf ekki að vera sérfræðingur til að skynja þegar orð og gjörðir fara ekki saman. Traust tapast ekki bara vegna mistaka, heldur jafnvel enn frekar þegar fólk upplifir að verið sé að leika tveimur skjöldum. Þegar eitt er sagt en annað gert. Einnig þegar eitt er sagt í dag en annað á morgun.

 

Verksmiðja falskrar dyggðar

Samfélagsmiðlar gera þetta enn sýnilegra. Þar lærum við að setja fram „rétt“ viðhorf, „rétta“ samkennd, „rétta“ reiði. Þar er auðvelt að líta út fyrir að vera siðferðilega meðvitaður. Við fáum sérstaka umbun með „lækum“ ef við segjum það „rétta“, alveg óháð því hvort við lifum eftir því sem við boðum. Svo er allt annað uppi á teningnum þegar enginn horfir.

 

Góð manneskja í prófílnum, ekki í lífinu

Við erum orðin vön því að sýna útgáfu af okkur sem er hreinni, réttari og dyggðugri en sú sem við lifum í raun. En sá klofningur hefur sitt verð. Hann birtist sem kvíði, tómleiki og tilfinning um að vera alltaf að þykjast. Eins og við séum „á sviði“. Að við lifum tvöföldu lífi. Fullkomlega siðferðilega réttu lífi á samfélagsmiðlum en hlaðnu breiskleika í raunheimum. Lífi þar sem þú talar gegn stríði í Ísrael en minnist ekki á borgarastyrjöld í Nígeríu þar sem kristnir eru myrtir (það hafa um 50.000 kristnir einstaklingar verið myrtir í Afríku á seinasta ári).

 

Heilleiki er ekki fullkomnun

Boðorðið um ull og hör er kannski einmitt sérstaklega mikilvægt fyrir okkar tíma. Það segir okkur ekki að vera fullkomin, heldur heiðarleg. Ekki að vera syndlaus, heldur heil. Í stjórnmálum þýðir það að vera tilbúin að standa við gildi okkar, jafnvel þegar það kostar fylgi, jafnvel þegar það kostar deilu. Jafnvel þótt þú fáir yfir þig hneykslun og reiði.

 

Vertu ekki úr tveimur efnum

Í daglegu lífi þýðir það að lifa ekki í stöðugu sjálfsleikhúsi. Á samfélagsmiðlum þýðir það að vera ekki betri manneskja í prófílnum en í veruleikanum. En í stjórnmálum merkir þetta að vera trúr sannfæringu sinni.

Við getum ekki verið fullkomin, en við getum verið sönn. Við getum reynt að vera úr einu efni.

Og það breytir sennilega meira en við gerum okkur grein fyrir.

Next
Next

Ríkisstjórnin á brauðfótum, Kristrún daðrar við Miðflokkinn