Uppgjör við landsfund (1 af 3)
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins sem haldinn var seinustu helgi var fyrir margar sakir merkilegur. Hæst bar þar að í fyrsta skipti í bráðum 100 ára starfsemi var kona kosin formaður.
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er þrekvirki í undirbúningi.
Eftir að hafa sjálfur mætt á þessa fundi í áratugi þótti mér nokkrir þættir standa upp úr sem fjölmiðlafólk á staðnum hefur sennilega ekki haft forsendur til að skynja eins og við flokksfólk:
1. Samheldni
Frá því að gengið var inn í salinn á föstudegi mátti finna sterkt hve flokksmenn voru einbeittir í að standa saman í gegnum þennan fund og láta ekki val á forystufólki skapa þrætugjá sem myndi eingöngu fita vinstripúkann á fjósbitanum. Margir höfðu á orði hversu mikil forréttindi það væru að geta stutt einn frambjóðanda án þess að það merki að vera á móti hinum.
2. Virðing
Brotthvarf Bjarna og Þórdísar úr forystunni vakti blendnar tilfinningar. Landsfundargestir, vor í senn meðvitað um það stórvirki sem þau unnu og hversu stórt það var af þeim að stíga af forystusviðinu á þessum krossgötum. Öll framganga fundarmanna var til marks um það. Formaður og varaformaður stigu því frá þessum störfum af mikilli reisn og hétu samtímis áframhaldandi starfi fyrir hugmyndafræðina okkar. Þórdís Kolbrún sem þingmaður og Bjarni í öðrum störfum. Ólíkt vinstrimönnum viljum við hægrimenn þannig veruleika fyrir okkar fólk.
3. Léttleiki
Þegar vel tekst til er landsfundur vinafögnuður. Í gegnum fundinn mátti glögglega sjá að kátínan og leikgleðin var einlæg og græskulaus. Hlátrasköll, faðmlög og þétt handabönd mátti sjá og heyra um allan sal. Landsfundarhófið var einstakt hvað þetta varðar. Það var sérstaklega ánægjulegt að upplifa þennan veruleika í gegnum þá sem voru að mæta á sinn fyrsta landsfund. Af einhverjum sökum áttu þeir von á meira stífelsi og formlegheitum.
4. Breyting
Í samtali og framgöngu landsfundargesta mátti skynja sterkt viljann til breytinga. Tími pólitískra málamiðlana til að halda saman ríkisstjórn með hugmyndafræðilegum andstæðingum er liðinn. Sjálfstæðismenn vilja ekki að flokkurinn þeirra sé praktískur skaðaminnkandi valdaflokkur heldur straumur framsækinna hugmynda þar sem farvegurinn markast af frelsi einstaklingsins og velferð samfélagsins.
5. Skipulag
Landsfundur er þrekvirki. Þar koma saman á þriðjaþúsund gesta til að starfa í málefnanefndum, kjósaforystu, mótastefnu og allt hitt sem á sér stað. Ég er ekki viss um að fólk geri sér grein fyrir því hversu mikil vinna það er að skipuleggja þetta. Í þetta skipti gekk skipulagið nánst fullkomlega upp. Það er því enn og aftur ástæða til að hrósa Þórði Þórarinssyni og hann öfluga teymi fyrir fundinn. Þeim verður seint nægilega þakkað.
Kjör formanns og varaformanns settu þó sterkasta svipinn á fundinn og óþarft að draga fjöður yfir þann veruleika. Þvert á móti tel ég að við Sjálfstæðismenn eigum að ræða það kjör í þaula og velta því fyrir okkur.
Meira um formannskjör í pistli morgundagsins.