Uppgjör við landsfund (2 af 3)

Landsfundurinn seinustu helgi kjarnaðist um kjör nýrrar forystu. Í framboði til formanns voru tvær konur sem um margt eru ólíkar, bæði hvað varðar aldur, reynslu, bakgrunn og persónuleika. Mörgum okkar var nokkur vandi á höndum, enda þær báðar afar öflugar. Ekki auðveldaði það valið að mörg okkar þekkja þær báðar vel og líta á þær sem nána samherja og vini. Eftir sem áður þurfti að taka afstöðu.

Tvær öflugustu stjórnarmálakonur landsins.

 

Guðrún Hafsteinsdóttir

Í baráttunni fyrir kjöri lagði Guðrún áherslu á reynslu sína af atvinnulífinu og það meginstef sjálfstæðisstefnunnar sem hefur kjarnast í slagorðinu „stétt með stétt“. Ekki er óvarlegt að halda því fram að þetta slagorð hafi tekið breytingum og merki í dag: „ein stefna sem sameinar í stað þess að sundra“. Sem sagt að sjálfstæðisstefnan eigi að vera jafn heppileg fyrir alla. Að flokkurinn leggi ekki áherslur á aldur, kyn, búsetu, stétt eða nokkuð annað sundurgreinanlegt heldur sé trú því að öllum sé farsælast að búa við frelsi og lágmarksríkisafskipti. Þessu fylgdi hún eftir með tilvísun í bakgrunn sinn í litlu fjölskyldufyrirtæki á landsbyggðinni og fl. Guðrún lagði fram hugmyndir um áherslubreytingar í starfi flokksins og mikilvægi þess að breiða út faðminn. Ásýndin var „venjuleg kona sem kaupir snyrtivörurnar sínar í Bónus í Hveragerði“.

Guðrún Hafsteins, formaður Sjálfstæðisflokksins.

 

Áslaug Arna

Áslaug Arna fór þá leið að leggja áherslu á mikilvægi kynslóðaskipta. Hún var kjarnyrt þegar koma að stjórnmálum og hikað hvergi við ádeilu á hugmyndafræði sem er andstæð Sjálfstæðisstefnunni. Þannig talaði hún fyrir því að Sjálfstæðisstefnan væri hér eftir sem hingað til líklegust til að skila árangri fyrir land og þjóð. Í kringum Áslaugu fylktist margt af áberandi fólki í valdastöðum, innan flokks sem utan. Henni varð tíðrætt um framtíðina, nýsköpun og breytingar. Ásýndin var: „Ung, öflug kona sem hefur hlotið traust, skilað árangri og er tilbúin i næsta skref.“

Áslaug Arna, tilbúin í næstu skref.

 

Góður árangur

Báðar stóðu þær sig afbragðsvel í kosningabaráttunni og báðar náðu þær góðum árangri. Nánast jafn góðum. Vart var sjónarmunur á niðurstöðunni en eftir tvítalningu reyndist Guðrún hafa 19 atkvæði (af 1.862) umfram Áslaugu Örnu. Hún varð þar með réttkjörinn formaður flokksins.

 

Ég studdi Guðrúnu

Ég var frá fyrstu mínútum stuðningsmaður Guðrúnar og hafði þau forréttindi að koma að framboði hennar þegar það var á hugmyndastigi. Það gerði ég þrátt fyrir að ég hefði miklar mætur á Áslaugu Örnu. Ég studdi Guðrúnu án þess að vera á móti Áslaugu. Það held ég að langflestir hafi gert.

 

Af hverju?

Af hverju studdi ég Guðrúnu? Svarið við því er einfalt. Annar svegar er hún oddviti í Suðurkjördæmi og þar með minn nánasti samstarfsmaður hvað þingið varðar. Hins vegar taldi ég hana hafa það til að bera að geta stýrt flokknum sem fulltrúi fjöldans frekar en hluti af fyrirliggjandi valdakerfi. Það segi ég sem hluti af valdakerfinu og virkur þátttakandi seinustu rúmlega tvo áratugi. Ég tel að Guðrún sé þannig að fólk „tengi við hana“ og trúi að hún sé að ganga í gegnum sömu lífsins verkefni og fólk almennt. Hún er „sypmpatísk“, góðleg og einlæg í samskiptum. Sýnir fólki virðingu og hlustar af athygli. Þetta tel ég mikilvægt fyrir formann flokksins. Þá skipti mig miklu að fá til þessara starfa formann sem gæti tekið markviss skref í átt að sameiningu afla og sátt innan flokks.

 

Tvær öflugar

Engin skyldi þó skilja þessi orð mín þannig að ég treysti ekki Áslaugu Örnu til þessara verka eða telji að hún hefði ekki ráðið við verkið. Ekki einu sinni að hún sé ekki einnig öflug hvað þetta varðar. Hvað ofangreint varðar taldi ég Guðrúnu þó hafa forskot. Hvað ýmislegt annað varðar taldi ég Áslaugu hafa forskot. Niðurstaða kosninga endurspeglar hvað mig varðar styrk þeirra beggja. Þær eru einfaldlega tvær öflugustu stjórnmálakonur þessarar þjóðar.

 

Sigurvegarinn

Í mínum huga unnu þær hvorug þessar kosningar og hvorug tapaði. Guðrún hafði betur en Sjálfstæðisflokkurinn er sigurvegarinn. Þaðan eigum við að feta veginn áfram.

 

Skil vonbrigðin

Ég get ekki lokið við þessi skrif nema að taka það fram að ég skil vonbrigði Áslaugar Örnu og hennar fylgisfólks. Sjálfur tapaði ég kosningum í Vestmannaeyjum árið 2018 með örfáum atkvæðum (minnir að það hafi verið tvö atkvæði sem hefðu þurft að færast á milli til að við Sjálfstæðismenn fengjum hreinan meirihluta). Í þeirri stöðu fannst mér skipta mestu að muna að málið er ekki hversu oft maður er sleginn niður, heldur hitt – hversu oft stendur maður upp.

 

Líkur hér pistli 2/3 af um landsfund. Sá næsti inniheldur vangaveltur um framtíðina og þær breytingar sem eru í farvatninu.

 

Previous
Previous

Viðbrögð lítils samfélags við harmleik

Next
Next

Uppgjör við landsfund (1 af 3)