Voðaverk með tilvísun í íslenskt samfélag

Skotárásin á Donald Trump var hroðalegt voðaverk. Sama hvað fólki finnst um stjórnmálaskoðanir hans, eða persónuleika. Ekkert réttlætir morð og morðtilræði. Árás þessi er ekki bara árás á fyrrverandi forseta og núverandi frambjóðanda, hún er árás á lýðræðið. Enn eitt dæmið um þá ömurlegu skautun sem á sér stað í umræðu um samfélagsleg mál.

 

Skautun og afmennskun

Hugtakið skautun lýsir þróun í átt til aukinnar skiptingar hópa eða samfélaga í andstæða póla. Við horfið erum „við réttlætið“ gegn „þeim ranglætinu“. Vopnin eru upplýsingaóreiða, órökstuddar ásakanir, hræðsluáróður og annað í þeim dúr. Mjög oft blandast inn í þetta sterk strámennska þar sem fólki er fyrst gerð upp skoðun og svo ráðist gegn þeirri skoðun. Versta tegundin er sennilega þegar afmennskun er beitt samhliða þessu.

 

Dósentinn

Slíkt dæmi mátti sjá í orðum Ernu Magnúsdóttur, dósent í læknadeild Íslands í facebook færslu. Þar sagði hún:

Ég viðurkenni að ég óskaði í nokkrar sekúndur þess í gær að árásarmaðurinn hefði hitt. En er ansi hrædd um að gjáin hefði víkkað enn meira hefði það gerst. Svona eins og þjóðsagan um að ef maður kremji kakkalakka sprautist eggin út um allt og gefi af sér 100 afkvæmi í stað þess eina kramda.

 

Þekkt aðferð

Óneitanlega verður manni hugsað til þeirrar afmennskunar sem sagan hefur sýnt okkur að geta haft ömurlegar afleiðingar. Það er ekki nema rétt rúmur mannsaldur frá því að Adolf Hitler og nasistastjórnin beitti því markvisst að viðhafa afmennskun til að lýsa gyðingum og báru þá saman við meindýr og sníkjudýr svo sem kakkalakka og rottur. Þetta var svo notað í samhengi við þann skilning að af þeim stafaði einhvers konar ógn. Þessi afmennskun var í að sumu leyti lykilatriði í áróðri nasista, sem hafði það að markmiði að réttlæta kerfisbundnar ofsóknir og að lokum þjóðarmorð það sem raungerðist í helförinni.

Þekkt er sú leið að afmennska andstæðinga sína.

 

Að óska dauða

Hér verður því ekki haldið fram að þótt sannarlega séu líkindi með orðum dósentsins og nasista, þá sé hvatinn þar að baki sá sami. Hjá því verður þó ekki litið að svo almenn er skautun orðin í íslensku samfélagi að fólk sem vill láta taka sig alvarlega hikar ekki við að beita afmennskun og tjá sig opinberlega um að þau hefðu glaðst við að sjá forsetaframbjóðanda drepinn.

 

Við sjáum

Hér á Íslandi sjáum við afleiðingar þessarar skautunar. Við sjáum almennum hátíðarhöldum á þjóðhátíðardaginn raskað. Við sjáum ráðherra verða fyrir árásum. Við sjáum að ógnin við öryggi ráðamanna er slík að ekki er þorandi annað en að þeir séu með lögreglufylgd. Við sáum þinghelgi rofna með ólátum á þingpöllum. Við sjáum lögreglumenn verða fyrir árásum.

Við sjáum að smátt og smátt er skautunin í íslensku samfélagi að ógna þeim stoðum sem við höfum hingað til séð sem traustar. Við skulum vona að við hér á Íslandi náum viðspyrnu áður en skautunin fer að hafa þau áhrif sem við sjáum erlendis.

Previous
Previous

Matur er of dýr

Next
Next

Húsnæði á Íslandi er of dýrt!