Vinnslustöð Vestmannaeyja í miðju deilna um eignarhald DV
Þegar baráttan um eignarhaldið á DV hófst átti ég ekki von á því að annað stærstu fyrirtækja í Vestmannaeyjum myndi blandast inn í þá baráttu. Sú er nú hinsvegar orðin staðan.
Málefni DV hafa verið fyrirferðamikil í vikunni. Hópur hluthafa hefur unnið að því að styrkja stöðu sína og ná yfirhöndinni. Í miðpunkti hvirfilbyljarins stendur Reynir Traustason ritstjóri. Annarsvegar snýst málið um ristjórnarstefnu hans og hinsvegar um...
...hann sjálfan og viðskipti hans.
Fast skotið úr báðum hlaupum
Það nýjasta í málinu vakti sérstaka athygli mína. Í gær skrifar Sigurður G. Guðjónsson pistil á Eyjuna undir titlinum „Reynir Traustason féll á eigin bragði“. Niðurlag greinarinnar vakti sérstaka athygli mína. Þar segir:
"Reynir Traustason ætti í nafni þess gagnsæis, heiðaleika og siðprýði í viðskiptum sem hann telur sig standa fyrir, að upplýsa allan almenning um,og ekki hvað síst lesendur DV og DV.is hvernig honum áskotnuðust kr. 15.000.000 til að leggja fram persónulega sem hlutafé í DV ehf.
Svona í Sandkornsstíl DV getur sagan af lánveitingunni hljóðað einhvern veginn á þennan veg: Reynir fór á fund útgerðarmanns sem átti í deilum við annan. Sá sem Reynir fór til lét Reyni fá fé. Og blaðið jafnvel líka. DV fór í framhaldi að segja frá deilum útgerðarmannanna á forsendum þess sem borgaði."
Fáum dylst að hér ræðir Sigurður G. það sem hingað til hefur eingöngu verið hvíslað um manna á milli í lúkörum og heitum pottum. Það er að segja að Guðmundur Krisjánsson í Brimi hafi afhent Reyni Traustasyni 15.000.000 kr. Í þeim tilgangi að losa sjálfan sig við umfjöllun um ýmis mál og fá í staðinn umfjöllun um meðeigendur sína i Vinnslustöð Vestmannaeyja og þá helst Sigurgeir Brynjar (Binna í Vinnsló). Hér skýtur Sigurður G. fast úr báðum hlaupum.
Ótti heimamanna
Allir þekkja baráttu Guðmundar við að ná undirtökunum í Vinnslustöðinni. (http://www.vb.is/frettir/65613/). Ótti heimamanna er sá að ef Guðmundi tækist ætlunarverk sitt þá myndi Vinnslustöðin þar með verða fyrir svipaðri meðferð og Básafellið heitið. Guðmundi hefur enda oft verið legið á háls að „kaupa útgerðarfyrirtæki og brytja þau niður“ (http://www.skessuhorn.is/frettir/nr/17108/).
Hjólað í VSV og Binna en Guðmundi og Brimi hampað
Víst er að á einhverjum tímapunkti fór DV að fjalla á óvæginn og skekktan máta um málefni Vinnslustöðvar Vestmannaeyja og Binna. Minna var um fréttir af Brim og málefnum Guðmundar Kristjánssonar.
Meðal umfjöllunar voru þessar greinar:
http://www.dv.is/frettir/2013/7/29/deilur-um-ard-i-vinnslustodinni-hofleg-ardgreidsla-mikilvaeg/
http://www.dv.is/frettir/2012/6/29/fengu-850-milljonir-en-sogdu-upp-folki/
http://www.dv.is/frettir/2013/8/18/felog-binna-skulda-36-milljarda-krona-WCTT9U/
http://www.dv.is/frettir/2013/8/9/eigandi-vinnslustodvarinnar-kengskuldsettur-TNP1LG/
http://www.dv.is/leidari/2013/8/9/stora-leyndarmalid-DJYUI3/
Guðmundi Krisjánssyni var hinsvegar boðið að vera á beinni línu í DV til að svara fyrir sig:
http://www.dv.is/beinlina/gudmundur-kristjansson/
Þá var einnig lítið fjallað um viðskipi Guðmundar sem sum hafa þó verið sögð böðuð gráum skugga. Þær fréttir sem af honum voru sagðar voru honum meinlitlar og frekar útfærsla á skoðunum hans (sjá td.:http://www.dv.is/frettir/2012/6/29/gudmundur-um-uppsagnir-hja-vinnslustodinni-thetta-er-syndarmennska/
Alvarlegt
Ef satt reynist að Guðmundur í Brim hafi afhent Reyni Traustasyni 15 milljónir í þeim tilgangi að kaupa sér óvægna og skaðlega umfjöllun um andstæðing sinn í viðskipum þá er það alvarlegt. Ef fjölmiðli er beitt markvisst til að pönkast á óvildarfólki fjársterkra aðila og taka það niður þá er það alvarlegt. Ef einn af stærstu hluthöfum hlutafélags notfærir sér upplýsingar sem hann kemst yfir í gegnum trúnaðarstöðu sína til að skaða meðeigendur sína þá er það alvarlegt. Ef Vinnslustöð Vestmannaeyja og meirihluti eigenda hefur orðið fyrir markvissum árásum DV í þeim tilgangi að skaða þá er það alvarlegt. Það er ekkert annað en aðför að starfsmönnum, eigendum og samfélaginu í Eyjum í heild.
Ásökun Sigurðar er grafalvarleg og vart við öðru að búast en að þetta mál verði skoðað í kjölinn. Verðlaunablaðamenn hljóta að taka þessu alvarlega og krefja Guðmund í Brimi og Reyni svara. Þangað til veit maður ekki hvað er satt í þessu máli.